Blog Layout

Umsögn um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2022 (1. Mál)

Atvinnufjelagið (AFJ), nýstofnað félag einyrkja og lítilla og meðalstórra fyrirtækja þakkar fyrir að vera boðið að veita umsögn um ofnagreint lagafrumvarp. AFJ hefur ekki haft tök á að rýna frumvarpið ítarlega á þeirri einu viku sem gafst til verksins og er hér því fyrst og fremst horft á stóru myndina, helstu hagsmunamál félagsmanna og hvað mætti betur fara í því efni. 


Málefni félagsmanna AFJ koma eðlilega víða við sögu, en heilt yfir er ekki gætt nægilega vel að hagsmunum smærri fyrirtækja, einkum þeirra minnstu með t.d. 50-100 starfsmenn eða færri í samanburði við þau stærstu. Þar sem lang flest fyrirtæki á Íslandi eru lítil og meðalstór og með stærstan hluta vinnuaflsins er mikilvægt að horft sé sérstaklega til hagsmuna þeirra, en ekki sérstaklega stórfyrirtækja eins og venja stendur yfirleitt til hér á landi. 


Hér er stiklað á því helsta sem Atvinnufjelagið leggur áherslu á í tengslum við fjárlög næsta árs og röðin ekki eftir einhverju sérstöku mikilvægi: 


1. Tryggingagjald.

Hvað varðar málefni einyrkja og lítilla fyrirtækja þá leggst tryggingagjald afar þungt á þessa starfsemi þar sem mörg þessara fyrirtækja eru í uppbyggingarstarfsemi og forðast vegna margs konar launatengdra gjalda og flækjustigs að ráða starfsfólk í vinnu. Einyrkjar, það er sjálfstætt starfandi launþegar, ættu t.d. ekki að greiða tryggingagjald þar sem þeir njóta almennt ekki þeirra réttinda sem þessi skattheimta á að skila. 


Þar sem því miður eru áform um að hækka tryggingagjaldið aftur um 0.25%, að tímabundinni lækkun þess lokinni, væri tilvalið að sæta lagi og horfa til þess að tryggingagjald taki mið af stærð fyrirtækja. Hvað einyrkja varðar ætti að fella það niður og hafa gjaldtökuna hófstillta hjá þeim fyrirtækjum sem eru t.a.m. með innan við 6-8 starfsmenn í vinnu. Óskað er eftir því, að leiðir til þrepaskiptrar innheimtu verði teknar til skoðunar sem liður í endurskoðun tryggingargjalds. Í skattakerfum eru persónuafslættir og stighækkandi skattar þekkt fyrirbæri og horfa mætti til slíkra aðgerða hvað tryggingagjald varðar. 


2. Skattar, leyfisgjöld, sektir o.fl.

Flöt gjaldtaka leggst hlutfallslega mun þyngra á smærri fyrirtæki. Þetta fyrirkomulag á opinberri gjaldtöku, að hafa eitt gjald fyrir alla, var e.t.v. ekki óeðlileg á tímum þegar flest fyrirtæki voru af svipaðri stærð hér á landi. Með tilkomu stórfyrirtækjarekstrar hér á landi er öldin önnur og völdin önnur og mikilvægt er að hið opinbera fari að haga gjaldtöku með því móti að hún leggist hlutfallslega jafnar á fyrirtæki, allt eftir stærð og veltu. Lítið, en gott dæmi er útvarpsgjald. Verulega ósanngjarnt er, svo að ekki sé dýpra í árina tekið, að miða innheimtu þessa við kennitölur einstaklinga og fyrirtækja. Að stórt fyrirtæki með hundruð starfsmanna og útgerðarmaður smábáts eða listamaður greiði sömu upphæð sem framlag til RUV er birtingarmynd óréttlætisins, þótt hver upphæð sé ekki há. Fara þarf í gegnum opinbera innheimtu, s.s. þjónustugjöld, eftirlitsgjöld, skatta og sektir opinberra aðila og stofnana hvað þetta varðar. 


3. Aðkoma lífeyrissjóða að litlum og meðalstórum fyrirtækjum.

Það er jákvætt að lögð er áhersla á að lífeyrissjóðir fá aukið svigrúm til fjárfestinga í Vísisjóðum og þeir taka þátt í framtakssjóðum, innviðum og í vaxandi mæli erlendis, en lífeyrissjóðir mættu samt hafa ríkari heimildir til lánveitinga og hlutafjárkaupa í litlum og meðalstórum vaxtarfyrirtækjum. Þau skipta okkar atvinnulíf og sérstaklega ungt fólk miklu máli. Hafa þar einnig margir góðir ávöxtunarkostir lífeyrissjóðanna tapast í gegnum tíðina, fyrirtæki sem nú eru metin á tugi milljarða. Alltaf þarf að vega og meta tækifæri framtíðarinnar en ekki horfa til fortíðar. Almennt er skortur á samhæfingu og framtíðarsýn hvað varðar fjárfestingar og þróun atvinnu- og menntastefnu ef halda á uppi velferðarkerfi framtíðarinnar þarf hver einstaklingur og hvert fyrirtæki að skapa aukin verðmæti. 


Sem dæmi má nefna að mjög fáir lífeyrissjóðir hafa undanfarin ár séð þau tækifæri sem hafa augljóslega verið að skapast í greinum á sviði heilbrigðis- og lífvísinda, fiskeldis, upplýsingatækni og skapandi greina; greina sem eru drifkraftur fjórðu iðnbyltingarinnar. Mörg þessara fyrirtækja eru annað hvort ekki innan hagsmunasamtaka atvinnulífsins eða ná ekki athygli enda fulltrúar þeirra sjaldan í stjórnum þeirra samtaka eða stjórnum lífeyrissjóða, sem kjörnar eru af svokölluðum „aðilum vinnumarkaðarins“ þótt til séu sjóðir þar sem stjórnir eru valdar af sjóðsfélögum. Ákveðin blanda í þessu efni gæti verið áhugaverð auk þátttöku smærri fyrirtækja. 


4. Bankakerfið í sterkri stöðu.

Fram til þessa hefur bankakerfið verið að mestu í ríkiseigu og hefur lagt áherslu á að tryggja hagsmuni og arðsemi sína til hins ítrasta. Sérstaklega hefur krafa um fasteignaveð verið mörgum áhugaverðum og arðsömum fyrirtækjum í hópi þeirra smærri verið erfitt. Þau hafa í vaxandi mæli leigt af fasteignafélögum og eiga ekki veðmöguleika. Af þeim sökum er ekki horft á þau raunverulegu tækifæri og trúverðugleika sem eigendur ættu að njóta. Með áframhaldandi einkavæðingu bankanna, sem boðað er í fjárlagafrumvarpinu, gæti þetta breyst og samkeppni aukist. Einnig mætti ríkisvaldið horfa meira til þess að styðja við lítil fyrirtæki í nýsköpunargreinum og grænum fjárfestingum um allt land og hvetja til þess með nýstofnuðu ráðuneyti vísinda, iðnaðar og nýsköpunar auk matvælaráðuneytis o.fl.


Stærri fyrirtæki, einkum þau sem eru skráð á hlutabréfamarkaði hafa mun betri tækifæri til fjármögnunar, m.a. erlendis, og sumar atvinnugreinar eins og sjávarútvegur, flutningsfyrirtæki, tryggingafyrirtæki og fjölmörg önnur stærri fyrirtæki eru áreiðanlega ekki að halda uppi hagnaði viðskiptabankahluta bankakerfisins. Þetta er fyrst og fremst lagt fram til skoðunar fyrir fjárlaganefnd. 


5. Skattrannsóknir og skatteftirlit.

Efla ber skattrannsóknir og skattaeftirlit, ekki eingöngu með tilliti til peningaþvættis heldur ekki síður vegna þess hve samkeppnisstaða fyrirtækja skekkist við margítrekuð skattlagabrot og kennitöluflakk. Þrátt fyrir margra ára umræðu um þetta virðist lítið hafa áunnist eins og nýlega dæmi sýna. Þótt atvinnufrelsi sé í landinu getur varla talist ásættanlegt að skattsvikafrelsi sé ítrekað liðið í reynd og sjaldnast innheimtast þær fjársektir sem fólk er dæmt í. Ákveðnar atvinnugreinar eru sérstaklega viðkvæmar fyrir þessu. Leggja þarf þyngri áherslu á þennan þátt hjá skattayfirvöldum, en þetta snertir einnig beint heimild fyrirtækja til að taka að sér VSK skil. 


6. Kjarasamningar.

Segja má að stærsta einstaka verkefni AFJ sé að stuðla að breytingum á eðli og inntaki kjarasamninga. Samskipta- og starfshefðir vinnumarkaðarins hér á landi hafa verið fordæmalausar, ef horft er til hinna Norðurlandanna. Hér eru hefðir eða átakamenning sem byggir á því að halda hagkerfinu í helgreipum hótanna og launadrifinnar verðbólgu. Margt stefnir í að svo verði áfram. Lítil og meðalstór fyrirtæki hafa litla möguleika annað en að dragast með inn í þennan vítahring án tillit til þess hvers konar starfsemi á í hlut. Eitt stærsta og mikilvægasta verkefni næstu ára er að aga samskipti á vinnumarkaði með heildarhagsmuni 2 atvinnulífsins og efnahagslegan stöðugleika fyrir augum. Mikilvægur liður í því er að byggja upp og efla embætti ríkissáttasemjara að norrænum fyrirmyndum og ánægjulegt að sjá að ríkisstjórnarsáttmálinn fjallar um það efni. 


Sjaldan eða aldrei hefur endurbætt samskiptamenning á vinnumarkaði verið mikilvægara en nú, þegar meginalda fjórðu iðnbyltingar er að halda innreið sína í samfélagið. Stundum mætti ætla að vinnumarkaðurinn eins og hann var á fyrri hluti 20. aldar væri enn við lýði og lítið vera aflögu 

fyrir hugvitið og samstarf sem aflvaka þessara tæknidrifnu breytinga sem eru að umbreyta atvinnulífinu. Nálgast þarf viðfangsefnið út frá almennum forsendum, en ekki sérhagsmunum stórfyrirtækja og ekki er síður brýnt að fagleg vinnubrögð séu höfð í heiðri, en ekki þröngir flokkspólitískir hagsmunir eða stéttapólitísk sem er sérstakt hugðarefni einstakra forystumanna innan verkalýðshreyfingarinnar. 


7. Nýsköpun verður mest hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum.

Hugvitið verður í grunninn oft drifið áfram af sérfræðingum í litlum fyrirtækjum og sprotum. Þessir sérfræðingar eiga fátt sameiginlegt með þeim lægst launuðu á launamarkaði og fyrirtæki þeirra starfa á allt öðrum forsendum, en stórfyrirtæki og með allt annan vinnutíma, starfs- og launaumhverfi. Þetta sést best núna þegar verið er að uppgötva alvarlega öryggisgalla á tölvukerfum fyrirtækja og jafnvel einstaklinga. Það uppgötvast jafnvel í litlum fyrirtækjum þar sem starfsmenn hafa menntast á undanförnum 5-10 árum hér á landi og erlendis í nýrri mikilvægri atvinnugrein. 


Í samskiptum við fjölmargar atvinnugreinar t.d. smábátaeigendur sem eru jafnvel orðnir á tiltölulega stórum bátum, lítil og meðalstór fjölskyldufyrirtæki, nýsköpunarfyrirtæki og svo mætti áfram telja, eru ófáar sögurnar um hvað mætti betur fara í rekstrarumhverfi þeirra, einyrkja og lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Upphafið þarf stundum að skoðast við gerð fjárlaga, 

en helst miklu fyrr, að ekki sé minnst á það spretthlaup sem ríkir í ár. Reyndar eiga þessi mál einnig heima í öðrum lagabálkum sem Atvinnufjelagið mun vonandi fá tækifæri til að koma að. 


Atvinnufjelagið hvetur háttvirta fjárlaganefnd til beita sér fyrir því að gerðar verði breytingar til einföldunar á þessu rekstrarumhverfi, bæði hvað eftirlit og gjaldtöku snertir og jafnræði í atvinnulífinu. Þá verður að gera gangskör að því að stafvæða samskipti fyrirtækja og opinberra aðila á öllum stigum, til að draga úr kostnaði og þeim tíma sem þessi samskipti krefjast að óbreyttu. Það er vissulega í gangi en mikið verk er framundan. 


8. Að lokum.

Fram kom ríkur vilji hjá öllum ríkisstjórnarflokkum að bæta opinbera stjórnsýslu, kjarasamninga, auka nýsköpun, stokka upp í stjórnarráðinu og í tilfelli a.m.k. tveggja ríkisstjórnarflokka að lækka skatta ekki síst hjá almenningi og litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Stóru fyrirtækin bjarga sér frekar sjálf með sterkari hagsmunatengslum með örfáum undantekningum, en þau verða þá oft þjóðhagslega mikilvæg og njóta sérstöðu.


Atvinnufjelagið er tilbúið til samstarfs með öllum þeim sem vilja vinna með hagsmuni einyrkja og lítilla og meðalstórra fyrirtækja fyrir augum, bæði atvinnurekendum og launþegahreyfingum. 


Virðingarfyllst, 

Fyrir hönd stjórnar Atvinnufjelagsins 

Höfundur: Þorkell Sigurlaugsson, viðskiptafræðingur og  meðstjórnandi í AFJ


Eftir Ingibjörg Valdimarsdottir 30 Nov, 2023
Formaður Atvinnufjelagsins mætti í viðtal í Reykjavík síðdegis til að fara yfir kjaraveturinn framundan og þær áherslur sem AFJ vill leggja inn í þær viðræður.
Eftir Ingibjörg Valdimarsdottir 20 Oct, 2023
20.okt.2023  Stjórn AFJ fundaði með Vilhjálmi Birgissyni, formanni Starfsgreinasambandsins í vikunni og ræddi við hann um áherslur félagsins þegar kemur að litlum og meðalstórum fyrirtækjum í komandi kjaraviðræðum. Rætt var um að í sameiningu þyrfti að auka kaupmátt launafólks og yrði það ekki gert án aðkomu ríkisins. Það er álit félagsins að nauðsynlegt er að kaupmáttur launa aukist án þess að hækka þurfi verð. Það er mikilvægt til að sporna við verðbólgu og ekki síður er það mikilvægt til að standa vörð um kaupgetu viðskiptavina lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Til þess að það gerist þarf aðkomu ríkisins og er stjórn AFJ með nokkrar tilllögur þess efnis sem ræddar voru á þessum fundi.
Eftir Ingibjörg Valdimarsdottir 15 Sep, 2023
Ný stjórn hittist á fyrsta fundi nýs starfsárs og byrjaði á að bjóða nýjan stjórnarmann velkominn. Félagið vill koma nokkrum málum að í komandi kjaraviðræður. Ljóst er að veturinn verður ansi harður.
Share by: