Saman eru lítil og meðalstór fyrirtæki stærsta afl atvinnulífsins.

Lesa meira um félagið

AF HVERJU AÐ STOFNA FÉLAG EINS OG ATVINNUFJELAGIÐ?


Með stofnun Atvinnufjelagsins er verið að ljá hagsmunum smærri fyrirtækja, hinum þögla meirihluta atvinnulífsins, skýra rödd. Ætlunin er að þétta raðirnar hjá launagreiðendum með skilvirkari hlutverkaskiptingu en nú er og heilsteyptari nálgun á viðfangsefni aðila vinnumarkaðarins - með hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi.


Lýðræðislegur grunnur Atvinnufjelagsins verður byggður á meginreglunni um eitt fyrirtæki, eitt atkvæði og aðild að félaginu mun ekki útiloka aðild að öðrum samtökum vinnumarkaðarins.

BÓKAÐU KYNNINGU

Fulltrúar atvinnufjelagsins koma og kynna félagið fyrir félagsmönnum.
Bóka kynningu

Þarfir lítilla og meðalstórra fyrirtækja

Atvinnufjelagið einbeitir sér eingöngu að þörfum og hagsmunum lítilla og meðalstórra fyrirtækja.


Stöndum vörð !

Félaginu er ætlað að fylgjast með og hafa frumkvæði í hagsmunamálum lítilla og meðastórra fyrirtækja gagnvart stjórnvöldum (ríki og sveitarfélögum), verkalýðshreyfingu og fjármálamarkaði.

Eflum hagsmunagæslu !

Atvinnufjelagið stendur öllum fyrirtækjum til boða sem vilja efla hagsmunagæslu lítilla og meðalstórra fyrirtækja hér á landi.


Gott samstarf

Samstarf Atvinnufjelagsins við önnur hagsmunafélög og fagfélög er mikilvægt. 


NÝJUSTU FRÉTTIR

Eftir Ingibjörg Valdimarsdottir 30 Nov, 2023
Formaður Atvinnufjelagsins mætti í viðtal í Reykjavík síðdegis til að fara yfir kjaraveturinn framundan og þær áherslur sem AFJ vill leggja inn í þær viðræður.
Eftir Ingibjörg Valdimarsdottir 20 Oct, 2023
20.okt.2023  Stjórn AFJ fundaði með Vilhjálmi Birgissyni, formanni Starfsgreinasambandsins í vikunni og ræddi við hann um áherslur félagsins þegar kemur að litlum og meðalstórum fyrirtækjum í komandi kjaraviðræðum. Rætt var um að í sameiningu þyrfti að auka kaupmátt launafólks og yrði það ekki gert án aðkomu ríkisins. Það er álit félagsins að nauðsynlegt er að kaupmáttur launa aukist án þess að hækka þurfi verð. Það er mikilvægt til að sporna við verðbólgu og ekki síður er það mikilvægt til að standa vörð um kaupgetu viðskiptavina lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Til þess að það gerist þarf aðkomu ríkisins og er stjórn AFJ með nokkrar tilllögur þess efnis sem ræddar voru á þessum fundi.
Eftir Ingibjörg Valdimarsdottir 15 Sep, 2023
Ný stjórn hittist á fyrsta fundi nýs starfsárs og byrjaði á að bjóða nýjan stjórnarmann velkominn. Félagið vill koma nokkrum málum að í komandi kjaraviðræður. Ljóst er að veturinn verður ansi harður.
Eftir Ingibjörg Valdimarsdottir 04 Jul, 2023
Fundargerð Aðalfundur Atvinnufélagsins Grand Hótel Reykjavík, 28. júní 2023, kl. 16:30 Sigmar Vilhjálmsson, formaður, bauð aðalfundarfólk velkomið og setti fundinn. Því næst lagði hann til að Ingibjörg Valdimarsdóttir tæki að sér fundarstjórn og Aðalheiður Jacobsen ritun fundargerðar og var það einróma samþykkt. Ingibjörg þakkaði viðstöddum traustið og kannaði að því búnu hvort löglega hafi verið boðað til fundarins. Svo reyndist vera og var þá gengið til venjubundinna aðalfundarstarfa skv. dagskrá. Fyrst á dagskrá var skýrsla stjórnar og bauð fundarstjóri Sigmari Vilhjálmssyni orðið. Er formaður hafði lokið máli sínu, þakkaði fundarstjóri honum fyrir greinargóða skýrslu og lagði að því búnu til að fyrirspurnir og umræður um skýrsluna yrðu teknar eftir kynningu á ársreikningum. Var það einróma samþykkt. Fundarstjóri gaf þá orðið Elísabetu Jónsdóttur, stjórnarkonu, sem haldið hefur utan um fjármál félagsins. Í yfirferð Elísabetar kom m.a. fram að tekjur voru samtals um 4,2 milljónir króna og útgjöld Atvinnufjelagsins væru 2,2 milljónir. Félagið á samtals 5,2 milljónir í eigið fé. Er Elísabet hafði lokið máli sínu opnaði fundarstjóri á fyrirspurnir og umræður um skýrslu stjórnar og ársreikning. Að umræðum loknum bar fundarstjóri svo upp skýrslu og ársreikninga, sem fundarmenn samþykktu samhljóða. Næst á dagskrá fundarins voru lagabreytingar en engar breytingar lágu fyrir fundinum og því var haldið í næsta lið. Næst á dagskrá var ákvörðun félagsgjalda og lagði stjórn til að félagsgjöld yrðu óbreytt á milli ára og var það samþykkt. Félagsgjöldin á starfsárinu 2023-2024 verða því sem hér segir: Einyrkjar kr. 35.000 2-9 stöðugildi kr. 75.000 10-19 stöðugildi kr. 125.000 20-49 stöðugildi kr. 175.000 50-99 stöðugildi kr. 250.000 100 eða fleiri kr. 350.000 Félagasamtök kr. 500.000 Verða þær innheimtar í tvennu lagi, fyrri helmingur um mitt árið og seinni helmingur í lok árs. Næst á dagskrá var stjórnarkjör og skal skv. samþykktum formaður stjórnar kjörinn fyrst. Fyrir fundinum lá framboð Sigmars Vilhjálmssonar og lýsti fundarstjóri eftir fleiri framboðum. Aðrir gáfu ekki kost á sér. Fundarstjóri bar því fram tillögu um endurkjör Sigmars Vilhjálmssonar og var hún einróma samþykkt. Gekk fundarstjóri þá að næsta dagskrárlið sem var kosning sex meðstjórnenda. Fyrir fundinum lá framboð Aðalheiðar V. Jacobsen, Elísabetar Jónsdóttur, Gunnars Inga Arnarsonar , Helgu Guðrúnar Jónasdóttur og Ingibjargar Valdimarsdóttur. Þeir sem ekki bjóða sig áfram fram og víkja úr stjórn er Ómars Þorgils Pálmasonar. Fundarstjóri lýsti eftir öðrum framboðum og bauð Valur Stefánsson sig fram. Fundarstjóri bar fram tillögu um kjör áðurnefndra sem meðstjórnenda og var það samþykkt einróma. Þá lágu fyrir fundinum tillaga um Jónínu Bjartmarz og Snorra Marteinssonar í varastjórn. Önnur framboð bárust ekki og var framboð þeirra einróma samþykkt. Hvað skoðunarmann félagsins snertir var tillaga um Ómar Davíðsson einróma samþykkt, en aðrar tillögur um skoðunarmann voru ekki gerðar. Næst á dagskrá aðalfundarins var ákvörðun um þóknun til stjórnarmanna fyrir komandi starfsár. Fráfarandi stjórn gerði tillögu um að stjórnarlaun verði ekki greidd til stjórnarmanna að þessu sinni, líkt og verið hefur hjá fráfarandi stjórn og var það einróma samþykkt. Fyrir lág erindi varðandi nýsköpunar- og frumkvöðlastarf og verða þau mál tekin betur fyrir í stjórn þegar frekari upplýsingar liggja fyrir. Fleira var ekki gert og var aðalfundi slitið kl. 17:15 /AJ
Eftir Ingibjörg Valdimarsdottir 29 Jun, 2023
Það er langhlaup að búa til sterkt félag Atvinnufjelagið er langhlaup. Það að breyta því umhverfi sem við búum við í Íslensku atvinnulifi gerist ekki á einni nótt. En þetta langhlaup hefst á því að flestöll lítil og meðalstór fyrirtæki sameinist á einum stað. Atvinnufjelagið er sá staður, enda er hver skráning með eitt atkvæði í AFJ og því verða ákvarðanir og stefnumál félagsis ákvörðuð á breiðum hagsmunagrunni félagsmanna en ekki sérhagsmunum. Sú vinna að upplýsa atvinnurekendur lítilla og meðalstórra fyrirtækja um hagsmuni þeirra er tímafrek, það er engum blöðum um það að fletta. Stjórn AFJ hefur alfarið séð um þá vinnu samhliða sínum störfum í að reka sín eigin fyrirtæki. Félagið hefur verið afar passasamt á þá fjármuni sem eru í félaginu og því ekki ráðið starfsmenn né greitt fyrir stjórnarsetu eða aðstöðu. Næstu skref Til þess að taka næstu skref, ráða inn starfsmann og herja á kynningarstarf á almennum markaði, þá þurfum við að fjölga félagsmönnum, auka í sjóðum félagsins áður en lagt er af stað í slíka vegferð. Það er því gríðarlega mikilvægt fyrir AFJ að félagsmenn leggist á eitt og hvetji aðra atvinnurekendur til að skrá sig og taka þátt í þessari uppbyggingu. Þetta er langhlaup og þetta eru hagsmunir allra lítilla og meðalstórra fyrirtækja sem eru hér undir. Nýtt starfsár Nýtt starfsár Atvinnufjelagsins hófst í september. Þá hallaði verulega á lítil og meðalstór fyrirtæki í samfélagsumræðunni og lítil áhersla var á hagsmuni þeirra innan verkalýðshreyfingarinnar. Mikið var rætt um verkföll og mikil ókyrrð innan verkalýðshreyfingarinnar. Það var mat stjórnar AFJ að blanda sér ekki í þann leðjuslag sem kjaraviðræðurnar reyndust vera. Á sama tíma óskaði AFJ eftir því að fá fundi með verkalýðsforrystunni sem vildi ekki svara óskum okkar um að fá sæti við borðið. Lögfræðilegt álitamál er um hvort að verkalýðshreyfingin hafi leyfi til að neita slíku, enda umboð AFJ fyrir félagsmenn sína óumdeilt. SVEIT, Samtök fyrirtækja á veitingamarkaði , hafa höfðað mál gegn Eflingu vegna þessa og mun það verða fordæmisskapandi og er AFJ í góðum tengslum við SVEIT um gang mála í því. Ný stjórn Ný stjórn AFJ tók til starfa með tvo nýja fulltrúa frá Atvinnurekendadeild FKA (AFKA), þær Aðalheiði Jacobsen og Ingibjörgu Valdimarsdóttur. Innan þeirra raða er mikill áhugi á félaginu og fara hagsmunir þeirra vel saman við áherslumál AFJ. AFKA er góður liðsauki við okkar sameiginlegu baráttu fyrir hagsmunum lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Fundir stjórnar hafa verið reglulegir og gagnlegir. Að mörgu er að huga og því hefur mestur tími farið í að forgangsraða áherslumálum. Niðurstaðan er sú að til að byrja með mun AFJ leggja aðaláherslu á skattalegt umhverfi lítilla og meðastórra fyrirtækja og þá sérstaklega tryggingagjaldið sem og þjónustugjöld og þóknanir til hins opinbera. Þar hallar verulega á lítil og meðalstór fyrirtæki í samaburði við stór fyrirtæki. Þegar rætt er um lítil fyrirtæki er átt við fyrirtæki með 1 til 10 starfsmenn og meðal stór fyrirtæki eru með 10 til 180 starfmenn. Þessi fyrirtæki eru um 90% allra fyrirtækja á Íslandi. A-FKA hélt kynningarfund í byrjun starfsárs með sínum félagskonum þar sem stjórn AFJ kynnti sín áherslumál og sameiginlegu hagsmuni AFKA og AFJ. Hagsmunarbarátta AFJ AFJ hefur beitt sér fyrir því að tekið sé tillit til hagsmuna lítilla og meðalstórra fyrirtækja í kjara-viðræðum og ítrekað bent á að hagsunir þeirra og stórfyrirtækja innan SA fara ekki saman. Í því sambandi bentum við á sérkjarasamninga sem gerðir hafa verið milli verkalýðsfélaga og einstakra atvinnurekenda og dregið fram í dagsljósið m.a. kjarasamning VR og Dressman þar sem dagvinnu-taxtar eru aðrir og rýmri en þeir sem VR almennt miðar við. AFJ hefur lagt áherslu á að fá samtal við sem flesta í þeim tilgangi að skapa umræðu um þessi hagsmunamál og hefur stjórnin m.a. rætt við ríkissáttasemjar, fjármálaráherra, formenn og forystumenn stjórnmálaflokka og verkalýðshreyfingarinnar. Allir aðilar eru sammála að betur má fara í hagsmunamálum lítilla og meðalstórra fyrirtækja. En áhugi á breytingum virðist ekki vera mikill í að breyta því kerfi sem fyrir er. Er það mat stjórnar AFJ að til þess að knýja fram breytingar þarf félagið að stækka og slagkraftur þess þarf að verða meiri. Sigmar Vilhjálmsson formaður stjórnar AFJ hefur verið ötull talsmaður okkar og hefur mætt í fjölmörg útvarpsviðtöl. Nú nýverið skrifað Sigmar stórgóða grein um þessi mál þar sem hann bendir á hlutverk hins opinbera í að leiðrétta stöðu okkar fyrirtækja. Undirtektir hafa verið góðar og umræður skapast í kjölfarið, en betur má ef duga skal og við erum rétt að byrja.  Atvinnufjelagið er að vaxa og góðir hlutir gerast hægt. Það er því miklvægt að hlúa að hagsmunum lítilla og meðalstórra fyrirækja og til þess þurfum við öfluga félagsmenn og fleiri félagsmenn. Stjórn Atvinnufjelagsins
Eftir Ingibjörg Valdimarsdottir 26 Jun, 2023
Grein eftir Sigmar Vilhjálmsson formann Atvinnufjelagsins í tilefni aðalfundar AFJ í júní 2023.
Eftir Ingibjörg Valdimarsdottir 21 Jun, 2023
Fréttabréf Atvinnufjelagsins 2.starfsárið, Kjaraviðræður, ný stjórn, hagsmunir AFJ, samtal við forystumenn og næstu skref.
10 Jul, 2022
Fundargerð Aðalfundur Atvinnufélagsins Grósku, 29. júní 2022, kl. 16:30 Sigmar Vilhjálmsson, formaður, bauð aðalfundarfólk velkomið. Því næst lagði hann til að Auður Ýr Helgadóttir tæki að sér fundarstjórn og Helga Guðrún Jónasdóttir ritun fundargerðar og var það einróma samþykkt. Auður Ýr þakkaði viðstöddum traustið og kannaði að því búnu hvort löglega hafi verið boðað til fundarins. Svo reyndist vera og var þá gengið til venjubundinna aðalfundarstarfa skv. dagskrá. Fyrst á dagskrá var skýrsla stjórnar og bauð fundarstjóri Sigmari Vilhjálmssyni orðið. Í yfirferð formanns yfir störf stjórnar á þessu fyrsta starfsári Atvinnufjelagsins kom m.a. fram að stjórnarmenn hafi lagst á eitt um að koma fótum undir starfsemi félagsins. Kröftunum hafi aðallega verið beint að kynningu og markaðssetningu Atvinnufjelagsins gagnvart annars vegar einyrkjum og litum og meðalstórum fyrirtækjum og hins vegar verkalýðshreyfingunni, ríkissáttasemjara, ráðherrum og öðrum hagaðilum félagsins. Þá greindi formaður frá því að atvinnurekendadeild Félags kvenna í atvinnulífinu (A-FKA) hafi ákveðið að ganga til liðs við Atvinnufjelagið nú í sumarbyrjun. Þetta væru góð tíðindi fyrir einyrkja, lítil og meðalstór fyrirtæki. Því betur sem gengur að byggja upp félagagrunn Atvinnufjelagsins þeim mun sterkari rödd muni þessi hingað til þögli meirihluti atvinnurekenda öðlast á vinnumarkaðnum. Helsta verkefni nýrrar stjórnar verði að halda þessu mikilvæga uppbyggingarstarfi áfram, svo færa megi starfsemi félagsin á næsta stig með starfsmannaráðningum. Að lokum vék formaður að stöðunni á vinnumarkaði, nú í aðdraganda kjarasamningagerðar í haust. Blikur séu á lofti í efnahagsmálum m.t.t. verðlagsþróunar og versnandi ytri aðstæðna. Ljóst væri því að forsenda þess að heillavænlegir kjarasamningar náist sé, að allir aðilar vinnumarkaðarins stefni að því marki og sýni með því móti ábyrgð í verki. Er formaður hafði lokið máli sínu, þakkaði fundarstjóri honum fyrir greinargóða skýrslu og lagði að því búnu til að fyrirspurnir og umræður um skýrsluna yrðu teknar eftir kynningu á ársreikningum. Var það einróma samþykkt. Fundarstjóri gaf þá orðið Elísabetu Jónsdóttur, stjórnarkonu, sem haldið hefur utan um fjármál félagsins. Í yfirferð Elísabetar kom m.a. fram að tekjur voru samtals um 4,4 milljónir króna og útgjöld Atvinnufjelagsins á þessu fyrsta starfsári 1,2 milljónir væru nær alfarið vegna markaðs- og kynningarkostnaðar, heimasíðu o.fl. . Þar sem félagið hefði verið stofnað seint á síðasta ári, hefði verið ákveðið að rukka aðeins hálft árgjald. Innheimtur hefðu verið góðar og ætti félagið ríflega tvær milljónir króna í sjóði. Í framtíðinni yrði árgjald innheimt í tvennu lagi um áramót og um mitt ár. Er Elísabet hafði lokið máli sínu opnaði fundarstjóri á fyrirspurnir og umræður um skýrslu stjórnar og ársreikning. Líflegar umræður spunnust á almennum nótum um starfsemi Atvinnufjelagsins og þá mikilvægu þýðingu sem stofnun þess hefur fyrir stöðu einyrkja, og lítilla og meðalstórra fyrirtækja á vinnumarkaði. Að umræðum loknum bar fundarstjóri svo upp skýrslu og ársreikninga, sem fundarmenn samþykktu samhljóða. Næst á dagskrá fundarins voru lagabreytingar. Í aðalfundarboði voru tíundaðar breytingartillögur á samþykktum Atvinnufjelagsins. Fundarstjóri fór yfir helstu breytingar á samþykktum sem m.a. lúta að fyrirkomulag á innheimtu félagsgjalda, aðild félagasamtaka að Atvinnufjelaginu og fækkun stjórnarmanna úr 8 í 7 ásamt fyrirkomulagi stjórnarkjörs. Kynnti fundarstjóri þessar tillögur og bar því næst undir fundinn hvort afgreiða mætti allar tillögur í einu lagi. Var það samþykkt og voru að því búnu tillögurnar samþykktar með öllum greiddum atkvæðum. Næst á dagskrá var ákvörðun félagsgjalda. Kynnti fundarstjóri tillögu fráfarandi stjórnar um óbreytt félagsgjöld og var það samþykkt einróma af fundarmönnum. Félagsgjöldin á starfsárinu 2022-2023 verða því sem hér segir: Einyrkjar kr. 35.000 2-9 stöðugildi kr. 75.000 10-19 stöðugildi kr. 125.000 20-49 stöðugildi kr. 175.000 50-99 stöðugildi kr. 250.000 100 eða fleiri kr. 350.000 Félagasamtök kr. 500.000 Verða þær innheimtar í tvennu lagi eins og áður var getið um og núna næst um þessi mánaðarmót. Næst á dagskrá var stjórnarkjör og skal skv. samþykktum formaður stjórnar kjörinn fyrst. Fyrir fundinum lá framboð Sigmars Vilhjálmssonar og lýsti fundarstjóri eftir fleiri framboðum. Aðrir gáfu ekki kost á sér. Fundarstjóri bar því fram tillögu um endurkjör Sigmars Vilhjálmssonar og var hún einróma samþykkt. Gekk fundarstjóri þá að næsta dagskrárlið sem var kosning sex meðstjórnenda. Fyrir fundinum lá framboð Aðalheiðar V. Jacobsen (A-FKA), Elísabetar Jónsdóttur, Gunnars Inga Arnarsonar , Helgu Guðrúnar Jónasdóttur, Ingibjargar Valdimarsdóttur (A-FKA) og Ómars Þorgils Pálmasonar. Aðalheiður og Ingibjörg koma nýjar í stjórnina en þeir sem ekki bjóða sig áfram fram og víkja því úr stjórn eru Arna Þorsteinsdóttir, Auður Ýr Helgadóttir og Þorkell Sigurlaugsson . Fundarstjóri lýsti eftir öðrum framboðum. Aðrir gáfu ekki kost á sér. Fundarstjóri bar því fram tillögu um kjör áðurnefndra sem meðstjórnenda og var það samþykkt einróma. Þá lágu fyrir fundinum tillaga um Örnu Þorsteinsdóttur, Jónínu Bjartmarz og Snorra Marteinssonar í varastjórn. Önnur framboð bárust ekki og var framboð þeirra einróma samþykkt.. Hvað skoðunarmann félagsins snertir var tillaga um Ómar Davíðsson einróma samþykkt, en aðrar tillögur um skoðunarmann voru ekki gerðar. Næst á dagskrá aðalfundarins var ákvörðun um þóknun til stjórnarmanna fyrir komandi starfsár. Fráfarandi stjórn gerði tillögu um að stjórnarlaun verði ekki greidd til stjórnarmanna að þessu sinni, líkt og verið hefur hjá fráfarandi stjórn og var það einróma samþykkt. Engin önnur mál lágu fyrir fundinum en þau, að formanni var þökkuð vaskleg framganga í fjölmiðlaviðtölum í þágu Atvinnufjelagsins. Fleira var ekki gert og var Aðalfundi slitið kl. 17:15 /HGJ
Eftir Helga Guðrún Jónasdóttir 28 Dec, 2021
Bilið hefur breikkað Á undanförnum 30 árum hafa verulegar breytingar átt sér stað í fyrirtækjaflóru landsins. Geti fyrirtæki stækkað og styrkt þannig samkeppnisstöðu sína, gera þau það. Það hefur gerst í fjölda atvinnugreina í sjávarútvegi, verslunarrekstri, bankastarfsemi og fleiri greinum. Það er jákvætt ef það gerist ekki á kostnað þeirra sem minni eru. Sum fyrirtæki ná þeirri „eftirsóknarverðu“ stöðu að verða „of stór“ til að falla. Icelandair hefur lengi haft þessa stöðu innan íslensku ferðaþjónustunnar og minnstu munaði að bankakerfið yrði skilgreint þannig árið 2008. Önnur fyrirtæki verða það stór að þau telja sig eiga að ráða leikreglum samkeppninnar og samfélagsins. Þrátt fyrir þessar breytingar í undirstöðum atvinnulífsins, hefur félagskerfi vinnumarkaðarins lítið breyst. Afleiðingar þess birtast fyrst og fremst í því að hagsmunir stórfyrirtækja eru allsráðandi fyrirtækjamegin innan þessa kerfis, sem er byggt upp á þeirri meginreglu að þeir ráða sem borga mest og þar sem völdin eru mest m.a. í formi skipunar stjórnar. Það er að mati AFJ bagaleg þróun, ekki hvað síst fyrir þá sök að langstærsti hluti launafólks starfa sem einyrkjar eða hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Innbyggð mismunun í gjaldtöku og fjármálakerfinu Þegar lítill eða enginn greinarmunur er gerður á milli lítilla og stórra í opinberri gjaldtöku og álögum þá leggst kostnaðarbyrði hlutfallslega mun þyngra á þá sem smærri eru, hvort sem það er útvarpsgjald eða margvíslegar álögur. Þessi kerfislæga mismunun gerir því smærri fyrirtækjum erfiðara að keppa sem getur dregið úr samkeppnishæfni eða skekkt samkeppnisstöðu fyrirtækja á hefðbundnum samkeppnismörkuðum. Þá er fjármálamarkaðurinn hér á landi með þeim ósköpum gerður að lánafyrirgreiðsla á eðlilegum kjörum er afar erfið hjá smærri fyrirtækjum enda hlýtur hagnaður bankakerfisins að koma þaðan. Stóru fyrirtækin hafa aðrar leiðir til fjármögnunar, hlutafjáraukningar, lántöku erlendis eða útgáfu skuldabréf. Lífeyrissjóðakerfið þarf breytta fjárfestinga- og lánastefnu. Lífeyrissjóðakerfið er sérstaklega sniðið að stórum skráðum fyrirtækjum eins og það séu þau einu arðsömu. Þar virðist ekki horft í áttina að litlu og meðalstóru fyrirtækjum í fagfjárfestingum fyrr en þau hafa stækkað og þá hækkað verulega í verði. Atvinnufjelagið vill leggja áherslu á breytingar á þessu í góðu samstarfi við lífeyrissjóðina. Margt gott má segja um stefnu ríkisstjórnarinnar því þar er loksins lögð áhersla á að lífeyrissjóðir geti ávaxtað eignir sínar með fjölbreyttari, en jafnframt öruggum hætti. Loksins verði fest í sessi heimild fyrir lífeyrissjóði að eiga yfir 20% í nýsköpunar og vaxtarsjóðum og meiri skilningur á mikilvægi innviðafjárfestinga þar sem mörg lítil og meðalstór fyrirtæki starfa um land allt. En til að þetta raungerist þurfa fulltrúar lítilla og meðalstórra fyrirtækja að sitja í stjórnun lífeyrissjóða, en ekki eingöngu fulltrúar stóru turnanna SA og ASÍ. Innbyggð mismunun í kjarasamningum Síðast en ekki síst endurspegla kjarasamningar ekki þann rekstrarveruleika sem lítil og meðalstór fyrirtæki standa andspænis nema að takmörkuðu leyti. Svo virðist sem fyrirtæki séu bundin að lögum hvað kjarasamning SA og ASÍ varðar, hvort heldur þau eru aðilar að samtökunum eða ekki. Þessi vandi hefur farið vaxandi undanfarin ár og bendir flest til þess að hann muni aukast enn frekar á komandi árum og áratugum eftir því sem umbylting atvinnulífsins eykst í tengslum við 4.iðnbyltinguna. Þar sem skapandi greinar, hugbúnaðargerð, ör þróun heilbrigðis- og líftækni, ferðaþjónustu, kvikmyndagerð og aðrar hugvitsdrifnar fara ört vaxandi. Ný tækifæri munu jafnframt skapast í orkutengdri starfsemi þar sem auðlindir eru nýttar til nýsköpunar. Þar geta gilt allt önnur lögmál um laun, kjarasamninga, kaupréttarsamninga, vinnutíma, vinnustað og menntun. Þarna verður vöxturinn mestur til velsældar og lífskjör almennings batna. Í kjaramálum þurfum við að komast inn í 21. öldina hvað þetta varðar. Litlu og meðalstóru fyrirtækin eru verðmætust Einyrkjar og litlu og meðalstóru fyrirtækin eru verðmætasti hluti vinnumarkaðarins atvinnulega og efnahagslega fyrir atvinnulífið um land allt þar með talið fyrir stærri fyrirtækin. Þetta er sá hluti vinnumarkaðarins þar sem flestir starfa, sem nýsköpun sprettur fram af, sem veitir vinnumarkaðnum nauðsynlegan sveigjanleika og efnahagsleg þróun til framtíðar. Þarna kemur einnig oft inn ungt, vel menntað og verðmætt starfsfólk fyrir framtíðina sem hefur látið minna fyrir sér fara í kröfugerð eða hagsmunabaráttu. Skapa þarf meiri skilning og sátt í samfélaginu ekki bara milli atvinnugreina og auðlinda þjóðarinnar heldur milli starfstétta, aldurshópa og stærðar fyrirtækja sem öll hafa sínu hlutverki að gegna í lífshlaupinu til vaxtar og velsældar.
Eftir Þorkell Sigurlaugsson 14 Dec, 2021
Atvinnufjelagið (AFJ), nýstofnað félag einyrkja og lítilla og meðalstórra fyrirtækja þakkar fyrir að vera boðið að veita umsögn um ofnagreint lagafrumvarp. AFJ hefur ekki haft tök á að rýna frumvarpið ítarlega á þeirri einu viku sem gafst til verksins og er hér því fyrst og fremst horft á stóru myndina, helstu hagsmunamál félagsmanna og hvað mætti betur fara í því efni. Málefni félagsmanna AFJ koma eðlilega víða við sögu, en heilt yfir er ekki gætt nægilega vel að hagsmunum smærri fyrirtækja, einkum þeirra minnstu með t.d. 50-100 starfsmenn eða færri í samanburði við þau stærstu. Þar sem lang flest fyrirtæki á Íslandi eru lítil og meðalstór og með stærstan hluta vinnuaflsins er mikilvægt að horft sé sérstaklega til hagsmuna þeirra, en ekki sérstaklega stórfyrirtækja eins og venja stendur yfirleitt til hér á landi. Hér er stiklað á því helsta sem Atvinnufjelagið leggur áherslu á í tengslum við fjárlög næsta árs og röðin ekki eftir einhverju sérstöku mikilvægi: 1. Tryggingagjald. Hvað varðar málefni einyrkja og lítilla fyrirtækja þá leggst tryggingagjald afar þungt á þessa starfsemi þar sem mörg þessara fyrirtækja eru í uppbyggingarstarfsemi og forðast vegna margs konar launatengdra gjalda og flækjustigs að ráða starfsfólk í vinnu. Einyrkjar, það er sjálfstætt starfandi launþegar, ættu t.d. ekki að greiða tryggingagjald þar sem þeir njóta almennt ekki þeirra réttinda sem þessi skattheimta á að skila. Þar sem því miður eru áform um að hækka tryggingagjaldið aftur um 0.25%, að tímabundinni lækkun þess lokinni, væri tilvalið að sæta lagi og horfa til þess að tryggingagjald taki mið af stærð fyrirtækja. Hvað einyrkja varðar ætti að fella það niður og hafa gjaldtökuna hófstillta hjá þeim fyrirtækjum sem eru t.a.m. með innan við 6-8 starfsmenn í vinnu. Óskað er eftir því, að leiðir til þrepaskiptrar innheimtu verði teknar til skoðunar sem liður í endurskoðun tryggingargjalds. Í skattakerfum eru persónuafslættir og stighækkandi skattar þekkt fyrirbæri og horfa mætti til slíkra aðgerða hvað tryggingagjald varðar. 2. Skattar, leyfisgjöld, sektir o.fl. Flöt gjaldtaka leggst hlutfallslega mun þyngra á smærri fyrirtæki. Þetta fyrirkomulag á opinberri gjaldtöku, að hafa eitt gjald fyrir alla, var e.t.v. ekki óeðlileg á tímum þegar flest fyrirtæki voru af svipaðri stærð hér á landi. Með tilkomu stórfyrirtækjarekstrar hér á landi er öldin önnur og völdin önnur og mikilvægt er að hið opinbera fari að haga gjaldtöku með því móti að hún leggist hlutfallslega jafnar á fyrirtæki, allt eftir stærð og veltu. Lítið, en gott dæmi er útvarpsgjald. Verulega ósanngjarnt er, svo að ekki sé dýpra í árina tekið, að miða innheimtu þessa við kennitölur einstaklinga og fyrirtækja. Að stórt fyrirtæki með hundruð starfsmanna og útgerðarmaður smábáts eða listamaður greiði sömu upphæð sem framlag til RUV er birtingarmynd óréttlætisins, þótt hver upphæð sé ekki há. Fara þarf í gegnum opinbera innheimtu, s.s. þjónustugjöld, eftirlitsgjöld, skatta og sektir opinberra aðila og stofnana hvað þetta varðar. 3. Aðkoma lífeyrissjóða að litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Það er jákvætt að lögð er áhersla á að lífeyrissjóðir fá aukið svigrúm til fjárfestinga í Vísisjóðum og þeir taka þátt í framtakssjóðum, innviðum og í vaxandi mæli erlendis, en lífeyrissjóðir mættu samt hafa ríkari heimildir til lánveitinga og hlutafjárkaupa í litlum og meðalstórum vaxtarfyrirtækjum. Þau skipta okkar atvinnulíf og sérstaklega ungt fólk miklu máli. Hafa þar einnig margir góðir ávöxtunarkostir lífeyrissjóðanna tapast í gegnum tíðina, fyrirtæki sem nú eru metin á tugi milljarða. Alltaf þarf að vega og meta tækifæri framtíðarinnar en ekki horfa til fortíðar. Almennt er skortur á samhæfingu og framtíðarsýn hvað varðar fjárfestingar og þróun atvinnu- og menntastefnu ef halda á uppi velferðarkerfi framtíðarinnar þarf hver einstaklingur og hvert fyrirtæki að skapa aukin verðmæti. Sem dæmi má nefna að mjög fáir lífeyrissjóðir hafa undanfarin ár séð þau tækifæri sem hafa augljóslega verið að skapast í greinum á sviði heilbrigðis- og lífvísinda, fiskeldis, upplýsingatækni og skapandi greina; greina sem eru drifkraftur fjórðu iðnbyltingarinnar. Mörg þessara fyrirtækja eru annað hvort ekki innan hagsmunasamtaka atvinnulífsins eða ná ekki athygli enda fulltrúar þeirra sjaldan í stjórnum þeirra samtaka eða stjórnum lífeyrissjóða, sem kjörnar eru af svokölluðum „aðilum vinnumarkaðarins“ þótt til séu sjóðir þar sem stjórnir eru valdar af sjóðsfélögum. Ákveðin blanda í þessu efni gæti verið áhugaverð auk þátttöku smærri fyrirtækja. 4. Bankakerfið í sterkri stöðu. Fram til þessa hefur bankakerfið verið að mestu í ríkiseigu og hefur lagt áherslu á að tryggja hagsmuni og arðsemi sína til hins ítrasta. Sérstaklega hefur krafa um fasteignaveð verið mörgum áhugaverðum og arðsömum fyrirtækjum í hópi þeirra smærri verið erfitt. Þau hafa í vaxandi mæli leigt af fasteignafélögum og eiga ekki veðmöguleika. Af þeim sökum er ekki horft á þau raunverulegu tækifæri og trúverðugleika sem eigendur ættu að njóta. Með áframhaldandi einkavæðingu bankanna, sem boðað er í fjárlagafrumvarpinu, gæti þetta breyst og samkeppni aukist. Einnig mætti ríkisvaldið horfa meira til þess að styðja við lítil fyrirtæki í nýsköpunargreinum og grænum fjárfestingum um allt land og hvetja til þess með nýstofnuðu ráðuneyti vísinda, iðnaðar og nýsköpunar auk matvælaráðuneytis o.fl. Stærri fyrirtæki, einkum þau sem eru skráð á hlutabréfamarkaði hafa mun betri tækifæri til fjármögnunar, m.a. erlendis, og sumar atvinnugreinar eins og sjávarútvegur, flutningsfyrirtæki, tryggingafyrirtæki og fjölmörg önnur stærri fyrirtæki eru áreiðanlega ekki að halda uppi hagnaði viðskiptabankahluta bankakerfisins. Þetta er fyrst og fremst lagt fram til skoðunar fyrir fjárlaganefnd. 5. Skattrannsóknir og skatteftirlit. Efla ber skattrannsóknir og skattaeftirlit, ekki eingöngu með tilliti til peningaþvættis heldur ekki síður vegna þess hve samkeppnisstaða fyrirtækja skekkist við margítrekuð skattlagabrot og kennitöluflakk. Þrátt fyrir margra ára umræðu um þetta virðist lítið hafa áunnist eins og nýlega dæmi sýna. Þótt atvinnufrelsi sé í landinu getur varla talist ásættanlegt að skattsvikafrelsi sé ítrekað liðið í reynd og sjaldnast innheimtast þær fjársektir sem fólk er dæmt í. Ákveðnar atvinnugreinar eru sérstaklega viðkvæmar fyrir þessu. Leggja þarf þyngri áherslu á þennan þátt hjá skattayfirvöldum, en þetta snertir einnig beint heimild fyrirtækja til að taka að sér VSK skil. 6. Kjarasamningar. Segja má að stærsta einstaka verkefni AFJ sé að stuðla að breytingum á eðli og inntaki kjarasamninga. Samskipta- og starfshefðir vinnumarkaðarins hér á landi hafa verið fordæmalausar, ef horft er til hinna Norðurlandanna. Hér eru hefðir eða átakamenning sem byggir á því að halda hagkerfinu í helgreipum hótanna og launadrifinnar verðbólgu. Margt stefnir í að svo verði áfram. Lítil og meðalstór fyrirtæki hafa litla möguleika annað en að dragast með inn í þennan vítahring án tillit til þess hvers konar starfsemi á í hlut. Eitt stærsta og mikilvægasta verkefni næstu ára er að aga samskipti á vinnumarkaði með heildarhagsmuni 2 atvinnulífsins og efnahagslegan stöðugleika fyrir augum. Mikilvægur liður í því er að byggja upp og efla embætti ríkissáttasemjara að norrænum fyrirmyndum og ánægjulegt að sjá að ríkisstjórnarsáttmálinn fjallar um það efni. Sjaldan eða aldrei hefur endurbætt samskiptamenning á vinnumarkaði verið mikilvægara en nú, þegar meginalda fjórðu iðnbyltingar er að halda innreið sína í samfélagið. Stundum mætti ætla að vinnumarkaðurinn eins og hann var á fyrri hluti 20. aldar væri enn við lýði og lítið vera aflögu fyrir hugvitið og samstarf sem aflvaka þessara tæknidrifnu breytinga sem eru að umbreyta atvinnulífinu. Nálgast þarf viðfangsefnið út frá almennum forsendum, en ekki sérhagsmunum stórfyrirtækja og ekki er síður brýnt að fagleg vinnubrögð séu höfð í heiðri, en ekki þröngir flokkspólitískir hagsmunir eða stéttapólitísk sem er sérstakt hugðarefni einstakra forystumanna innan verkalýðshreyfingarinnar. 7. Nýsköpun verður mest hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Hugvitið verður í grunninn oft drifið áfram af sérfræðingum í litlum fyrirtækjum og sprotum. Þessir sérfræðingar eiga fátt sameiginlegt með þeim lægst launuðu á launamarkaði og fyrirtæki þeirra starfa á allt öðrum forsendum, en stórfyrirtæki og með allt annan vinnutíma, starfs- og launaumhverfi. Þetta sést best núna þegar verið er að uppgötva alvarlega öryggisgalla á tölvukerfum fyrirtækja og jafnvel einstaklinga. Það uppgötvast jafnvel í litlum fyrirtækjum þar sem starfsmenn hafa menntast á undanförnum 5-10 árum hér á landi og erlendis í nýrri mikilvægri atvinnugrein. Í samskiptum við fjölmargar atvinnugreinar t.d. smábátaeigendur sem eru jafnvel orðnir á tiltölulega stórum bátum, lítil og meðalstór fjölskyldufyrirtæki, nýsköpunarfyrirtæki og svo mætti áfram telja, eru ófáar sögurnar um hvað mætti betur fara í rekstrarumhverfi þeirra, einyrkja og lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Upphafið þarf stundum að skoðast við gerð fjárlaga, en helst miklu fyrr, að ekki sé minnst á það spretthlaup sem ríkir í ár. Reyndar eiga þessi mál einnig heima í öðrum lagabálkum sem Atvinnufjelagið mun vonandi fá tækifæri til að koma að. Atvinnufjelagið hvetur háttvirta fjárlaganefnd til beita sér fyrir því að gerðar verði breytingar til einföldunar á þessu rekstrarumhverfi, bæði hvað eftirlit og gjaldtöku snertir og jafnræði í atvinnulífinu. Þá verður að gera gangskör að því að stafvæða samskipti fyrirtækja og opinberra aðila á öllum stigum, til að draga úr kostnaði og þeim tíma sem þessi samskipti krefjast að óbreyttu. Það er vissulega í gangi en mikið verk er framundan. 8. Að lokum. Fram kom ríkur vilji hjá öllum ríkisstjórnarflokkum að bæta opinbera stjórnsýslu, kjarasamninga, auka nýsköpun, stokka upp í stjórnarráðinu og í tilfelli a.m.k. tveggja ríkisstjórnarflokka að lækka skatta ekki síst hjá almenningi og litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Stóru fyrirtækin bjarga sér frekar sjálf með sterkari hagsmunatengslum með örfáum undantekningum, en þau verða þá oft þjóðhagslega mikilvæg og njóta sérstöðu. Atvinnufjelagið er tilbúið til samstarfs með öllum þeim sem vilja vinna með hagsmuni einyrkja og lítilla og meðalstórra fyrirtækja fyrir augum, bæði atvinnurekendum og launþegahreyfingum. Virðingarfyllst, Fyrir hönd stjórnar Atvinnufjelagsins
Sjá Meira

STÓRU MÁLIN

 Markmið félagsins er að gæta hagsmuna félagsmanna sinna, sem eru lítil og meðalstór fyrirtæki og einstaklinga í atvinnurekstri,

m.a. til að styrkja og jafna stöðu þeirra.

  • STJÓRN

    Stjórn Atvinnufjelagsins skipa:  Aðalheiður Jacobsen, Elísabet Jónsdóttir, Gunnar Ingi Arnarson, Helga Guðrún Jónasdóttir, Ingibjörg Valdimarsdóttir, Sigmar Vilhjálmsson og Valur Stefánsson

    Aðalheiður Jacobsen

    Eigandi Netpartar ehf.

    Elísabet Jónsdóttir

    Framkvæmdastjóri Löður ehf.

    Gunnar Ingi Arnarson

    Meðeigandi Málmtækni hf.

    Helga Guðrún Jónasdóttir

    Samskiptastjóri

    Ingibjörg Valdimarsdóttir

    Eigandi Ritari ehf.

    Sigmar Vilhjálmsson

    Eigandi Munnbitinn ehf.

    Valur Stefánsson

    Framkvæmdastjóri Fagform

    Share by: