Bilið hefur breikkað
Á undanförnum 30 árum hafa verulegar breytingar átt sér stað í fyrirtækjaflóru landsins. Geti fyrirtæki stækkað og styrkt þannig samkeppnisstöðu sína, gera þau það. Það hefur gerst í fjölda atvinnugreina í sjávarútvegi, verslunarrekstri, bankastarfsemi og fleiri greinum. Það er jákvætt ef það gerist ekki á kostnað þeirra sem minni eru. Sum fyrirtæki ná þeirri „eftirsóknarverðu“ stöðu að verða „of stór“ til að falla. Icelandair hefur lengi haft þessa stöðu innan íslensku ferðaþjónustunnar og minnstu munaði að bankakerfið yrði skilgreint þannig árið 2008. Önnur fyrirtæki verða það stór að þau telja sig eiga að ráða leikreglum samkeppninnar og samfélagsins.
Þrátt fyrir þessar breytingar í undirstöðum atvinnulífsins, hefur félagskerfi vinnumarkaðarins lítið breyst. Afleiðingar þess birtast fyrst og fremst í því að hagsmunir stórfyrirtækja eru allsráðandi fyrirtækjamegin innan þessa kerfis, sem er byggt upp á þeirri meginreglu að þeir ráða sem borga mest og þar sem völdin eru mest m.a. í formi skipunar stjórnar. Það er að mati AFJ bagaleg þróun, ekki hvað síst fyrir þá sök að langstærsti hluti launafólks starfa sem einyrkjar eða hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum.
Innbyggð mismunun í gjaldtöku og fjármálakerfinu
Þegar lítill eða enginn greinarmunur er gerður á milli lítilla og stórra í opinberri gjaldtöku og álögum þá leggst kostnaðarbyrði hlutfallslega mun þyngra á þá sem smærri eru, hvort sem það er útvarpsgjald eða margvíslegar álögur. Þessi kerfislæga mismunun gerir því smærri fyrirtækjum erfiðara að keppa sem getur dregið úr samkeppnishæfni eða skekkt samkeppnisstöðu fyrirtækja á hefðbundnum samkeppnismörkuðum. Þá er fjármálamarkaðurinn hér á landi með þeim ósköpum gerður að lánafyrirgreiðsla á eðlilegum kjörum er afar erfið hjá smærri fyrirtækjum enda hlýtur hagnaður bankakerfisins að koma þaðan. Stóru fyrirtækin hafa aðrar leiðir til fjármögnunar, hlutafjáraukningar, lántöku erlendis eða útgáfu skuldabréf.
Lífeyrissjóðakerfið þarf breytta fjárfestinga- og lánastefnu.
Lífeyrissjóðakerfið er sérstaklega sniðið að stórum skráðum fyrirtækjum eins og það séu þau einu arðsömu. Þar virðist ekki horft í áttina að litlu og meðalstóru fyrirtækjum í fagfjárfestingum fyrr en þau hafa stækkað og þá hækkað verulega í verði. Atvinnufjelagið vill leggja áherslu á breytingar á þessu í góðu samstarfi við lífeyrissjóðina. Margt gott má segja um stefnu ríkisstjórnarinnar því þar er loksins lögð áhersla á að lífeyrissjóðir geti ávaxtað eignir sínar með fjölbreyttari, en jafnframt öruggum hætti. Loksins verði fest í sessi heimild fyrir lífeyrissjóði að eiga yfir 20% í nýsköpunar og vaxtarsjóðum og meiri skilningur á mikilvægi innviðafjárfestinga þar sem mörg lítil og meðalstór fyrirtæki starfa um land allt. En til að þetta raungerist þurfa fulltrúar lítilla og meðalstórra fyrirtækja að sitja í stjórnun lífeyrissjóða, en ekki eingöngu fulltrúar stóru turnanna SA og ASÍ.
Innbyggð mismunun í kjarasamningum
Síðast en ekki síst endurspegla kjarasamningar ekki þann rekstrarveruleika sem lítil og meðalstór fyrirtæki standa andspænis nema að takmörkuðu leyti. Svo virðist sem fyrirtæki séu bundin að lögum hvað kjarasamning SA og ASÍ varðar, hvort heldur þau eru aðilar að samtökunum eða ekki. Þessi vandi hefur farið vaxandi undanfarin ár og bendir flest til þess að hann muni aukast enn frekar á komandi árum og áratugum eftir því sem umbylting atvinnulífsins eykst í tengslum við 4.iðnbyltinguna. Þar sem skapandi greinar, hugbúnaðargerð, ör þróun heilbrigðis- og líftækni, ferðaþjónustu, kvikmyndagerð og aðrar hugvitsdrifnar fara ört vaxandi. Ný tækifæri munu jafnframt skapast í orkutengdri starfsemi þar sem auðlindir eru nýttar til nýsköpunar. Þar geta gilt allt önnur lögmál um laun, kjarasamninga, kaupréttarsamninga, vinnutíma, vinnustað og menntun. Þarna verður vöxturinn mestur til velsældar og lífskjör almennings batna. Í kjaramálum þurfum við að komast inn í 21. öldina hvað þetta varðar.
Litlu og meðalstóru fyrirtækin eru verðmætust
Einyrkjar og litlu og meðalstóru fyrirtækin eru verðmætasti hluti vinnumarkaðarins atvinnulega og efnahagslega fyrir atvinnulífið um land allt þar með talið fyrir stærri fyrirtækin. Þetta er sá hluti vinnumarkaðarins þar sem flestir starfa, sem nýsköpun sprettur fram af, sem veitir vinnumarkaðnum nauðsynlegan sveigjanleika og efnahagsleg þróun til framtíðar. Þarna kemur einnig oft inn ungt, vel menntað og verðmætt starfsfólk fyrir framtíðina sem hefur látið minna fyrir sér fara í kröfugerð eða hagsmunabaráttu. Skapa þarf meiri skilning og sátt í samfélaginu ekki bara milli atvinnugreina og auðlinda þjóðarinnar heldur milli starfstétta, aldurshópa og stærðar fyrirtækja sem öll hafa sínu hlutverki að gegna í lífshlaupinu til vaxtar og velsældar.

