STOFNLÝSING

Stofnlýsing


Stofnlýsing

Tilgangur & markmið

Atvinnufjelagið þjónar litlum og meðalstórum fyrirtækjum


• Félagið gætir hagsmuna lítilla og meðalstórra fyrirtækja og fylgir hagsmunamálum ákveðið eftir. 

• Félagið sameinar rödd lítilla og meðalstórra fyrirtækja og stendur vörð um hagsmuni þeirra gagnvart stjórnvöldum, Alþingi, stéttarfélögum og fjármálastofnunum.

• Félagið er fulltrúi lítilla og meðalstórra fyrirtækja á opinberum vettvangi. 


Skattaumhverfi og leyfisgjöld

Skattaumhverfi fyrirtækja á Íslandi er ójafnt. Verðskrá leyfisgjalda og eftirlits er flöt sem setur hlutfallslega mun hærri kostnað á lítil og meðalstór fyrirtæki. 


  • Opinberar álögur og gjöld verða að taka mið af stærð fyrirtækja og rekstrarumfangi. Stjórnvöld verða að gæta sanngirni í opinberri innheimtu gagnvart fyrirtækjum með sambærilegum hætti og gert er með þrepaskiptingu í skattlagningu einstaklinga. Ósanngjarnt er og óskynsamlegt með tilliti til æskilegrar hagþróunar, að opinber innheimta sé hlutfallslega hærri hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum en stórfyrirtækjum. 


  • Reglubyrði, leyfisveitingar og eftirlit opinberra aðila verður að laga að stærð fyrirtækja og rekstrarumfangi. Tryggingagjaldið er gott dæmi þessa, en það átti upphaflega að vera tímabundin aðgerða vegna fjármögnunar atvinnuleysistrygginga þess opinbera og gera á þeim tíma mögulegt að halda tekjuskatti fyrirtækja í lágmarki. Umræddur skattur dregur verulega úr getu smærri fyrirtækja í starfsmannahaldi og hagkvæmni þess að hafa starfsfólk á launaskrá. 


  • Huga verður sérstaklega að stöðu lítilla og meðalstórra fyrirtækja á landsbyggðinni og örva um leið atvinnuuppbygginu utan höfuðborgarsvæðisins. 


Aðgengi að lánsfjármagni

Bæta verður aðgengi að fjármagni. Forsendur lána á Íslandi eru fasteignaveð. Lítil og meðalstór fyrirtæki eru rúmlega 90% af heildarfjölda allra fyrirtækja í landinu og um 70% allra launþega starfa hjá þeim. Sú þjónusta sem þau njóta á fjármálamarkaði er ófullnægjandi.


  • Áhætta útlána er ofmetin og vextir of háir.
  • Fasteignaveð sem krafist er henta ekki öllum atvinnurekstri, enda margir hverjir leigutakar hjá stórum fasteignafélögum. 
  • Lífeyrissjóðir fjárfesta ekki né lána litlum eða meðalstórum fyrirtækjum þrátt fyrir að 70% sjóðsfélaga lífeyrissjóðanna starfi í slíkum fyrirtækjum. 
  • Lífeyrissjóðir eru stórir hluthafar í fasteignafélögum sem eru leigusalar atvinnurekenda. 


Kjaramál

Atvinnufjelagið gerir ráð fyrir og óskar eftir því, með hagsmuni og styrk félagsmanna í huga, að félagsmenn framselji samningsumboð vegna kjaramála til félagsins. Atvinnufélagið mun í kjaramálum taka mið að þörfum lítilla og meðalstórra fyrirtækja og einyrkja, í samráði við félagsmenn og þeirra hagsmuni og þarfir. 


  • Mæta verður betur þörfum fyrirtækja fyrir öðrum störfum en hefðbundnum 100% stöðugildum, s.s. hlutastörfum og skiptum störfum innan viðkomandi dags.
  • Jafna verður út misræmi á milli dagvinnu og kvöld- og helgarvinnu.
  • Taka til endurskoðunar flatar launahækkanir (prósentuhækkanir) kjarasamninga á lítil og meðalstór fyrirtæki sem þegar borga langt umfram launataxta.
  • Skilgreina verður vinnurétt atvinnurekenda.
  • Endurskoða verður fyrirkomulag á veikindadögum m.t.t. stöðu lítilla og meðalstórra fyrirtækja.
  • Skilgreina verður lagalegan rétt fyrirtækja í tengslum við vanrækslu starfsfólks og mögulega bótaskyldu.
  • Atvinnufelagið fer með samningsumboð fyrir hönd aðildarfyrirtækja, sem það velja, í kjarasamningum.


Reglur og atkvæðavægi

Lýðræðisgrunnur félagsins byggir á jöfnu atkvæðavægi. Hvert fyrirtæki hefur eitt atkvæði í atkvæðagreiðslum og fer vægi atkvæða því ekki eftir ársveltu. 


Aðildargjöld og félagsrekstur

Félagsgjald verður ákveðið af félagsmönnum á ársfundi félagsins. Það skal vera hófstillt og taka mið af fjölda starfsmanna og mun undirbúningsstjórn gera tillögu að gjaldflokkum á stofnfundi félagsins. Gjaldinu er ætlað að standa straum af stofnun og rekstri félagsins auk sjóðsstofnunar til stuðnings afmarkaðra verkefna. Hagkvæmni skal höfð í fyrirrúmi í rekstri félagsins, með áherslu á einfalda og skilvirka yfirbyggingu.


Share by: