Tveggja turna tal ASÍ og SA

Atvinnufjelagið vill að rödd lítilla og meðalstórra fyrirtækja heyrist og þeirra hagsmuna sé gætt í atvinnuuppbyggingu nýsköpunarhagkerfis 21. aldar.

Í grein sinni, „Níu áskoranir á nýju kjörtímabili“, sem Friðrik Jónsson, formaður BHM, birti í Kjarnanum hinn 26. september sl., fer hann yfir stöðuna á vinnumarkaði í upphafi nýs kjörtímabils, eins og hún blasir við honum. Það gerði hann einnig í síðasta þætti Sprengisands á Bylgjunni. Áskoranir sem bíða stjórnvalda og vinnumarkaðarins eru margar. Greinin er um margt athyglisverð, en e.t.v. fyrir nokkuð aðrar sakir en þær sem Friðrik sjálfur nefnir.


Friðrik kemur inn á hluti, sem hefur til skamms tíma farið heldur lítið fyrir í umræðunni. Hann bendir þannig á að hugvit vigti ekki nægilega þungt á vogarskálum vinnumarkaðarins, með þeim afleiðingum m.a. að nýsköpunarhagkerfið hafi enn ekki náð að festa rætur hér á landi. Góða gamla auðlindahagkerfið lifi því enn góðu lífi á kostnað vaxtarmöguleika til framtíðar litið, efnahagslegs stöðugleika og velferðaruppbyggingar.


Skaðlegar samskipta- og starfsaðferðir vinnumarkaðarins

Mesta athygli vekur þó umbúðalaus gagnrýni BHM-formannsins á samskipta- og starfshefðir vinnumarkaðarins. Hér sé um hefðir að ræða, sem haldi vexti hagkerfisins föstum í viðjum hótana og annarrar niðurrifsstarfsemi, sem kemur svo aftur niður á lífskjörum „okkar allra“ eins og það er orðað.

Heyr, heyr. Orð í tíma töluð. Vonandi duga síðan þau ráð sem Friðrik vill hafa í þessum efnum og það er að hefja samtalið strax og vanda vel til verka. Því miður bendir þó fátt til þess. Á því virðist ekki nægur áhugi, enda bendir flest til þess að núverandi verkalýðsforysta hafi mun meiri áhuga á fortíðinni og hefur barátta launafólks verið keyrð áratugi aftur í tímann, jafnvel aftur til hagkerfis nítjándu og fyrri hluta tuttugustu aldar.

Afar mikilvægt er að aðilar vinnumarkaðarins eigi uppbyggilegt samtal um stefnu og þróun vinnumarkaðarins til framtíðar litið; hvernig launaþróun við viljum sjá, hvers konar atvinnusköpun stendur undir þeim kröfum sem við gerum til framtíðarinnar í lífskjörum og velferð. Vilji verður að vera fyrir hendi um að finna svör sem báðir aðilar geta ásamt stjórnvöldum unnið með, þ.e. launafólk og launagreiðendur eða atvinnurekendur.

Snúum af braut átaka og ófriðar til bættra lífskjara og hagsældar

Annars staðar á Norðurlöndunum hefur þetta samtal tryggt launafólki samfellt hagvaxtarskeið og aukinn kaupmátt um áratugaskeið. Hér á landi mörkuðu þjóðarsáttarsamningarnir árið 1990 upphafið að sambærilegri þróun. Því miður gekk það þó ekki eftir og má segja að vonin hafi endanlega orðið að engu í eftirleik hrunsins. Á síðustu 10 árum virðist hafa skipt meira máli, í það minnsta hjá sumum aðildarfélögum ASÍ, að efna til ófriðar við vinnuveitendur en að efla kaupmáttar- og hagvaxtarþróun hér á landi.

Afleiðingarnar, ef svo má segja, birtast ekki síst í því tveggja turna tali ASÍ og SA sem yfirskyggir flest annað á vinnumarkaðnum og snýst í stuttu máli um kjör hinna lægst launuðu og rekstrarforsendur hjá stórfyrirtækjum landsins. Sá mikli meirihluti launþega og fyrirtækja sem falla ekki undir þetta tal stendur óbættur hjá garði eða nýtur ekki sannmælis. Þetta hefði ekki slompast eitthvað áfram um sinn, ef ekki væri fyrir Covid-19. En tíminn er á þrotum.


Nýsköpun, hugverkaiðnaður og skapandi atvinnugreinar

Sjaldan eða aldrei hefur nýr samskiptamáti verið mikilvægari en nú, þegar meginalda fjórðu iðnbyltingar er að halda innreið sína í samfélagið. Miðað við þann 19. aldar og fyrri hluta 20. aldar vinnumarkað sem ASÍ vinnur að virðist lítið vera aflögu fyrir hugvitið, aflvaka þessara tæknidrifnu breytinga sem eru að umbreyta atvinnulífinu. Hugvitið verður í grunninn rekið af sérfræðingum í litlum fyrirtækjum og sprotum. Þessir sérfræðingar eiga fátt sameiginlegt með þeim lægst launuðu og fyrirtæki þeirra starfa á allt öðrum forsendum en stórfyrirtæki.

Allir sem vilja geta séð að rétta þarf þessa neikvæðu þróun af. Afar brýnt er að við förum að ræða um stöðu og þróun vinnumarkaðarins út frá heildarhagsmunum vinnumarkaðarins. Nálgast þarf viðfangsefnið út frá almennum forsendum, en ekki sérhagsmunum og ekki er síður brýnt að fagleg vinnubrögð séu höfð í heiðri, en ekki þröngir flokkspólitískir hagsmunir eða stéttapólitík sem er sérstakt hugðarefni einstakra forystumanna verkalýðshreyfingarinnar.


Atvinnufjelagið vill horfa til nýrra vinnubragða og þarfa

Atvinnufjelagið (AFJ) er nýtt hagsmunafélag lítilla og meðalstórra fyrirtækja sem ætlað er að mæta þessari þróun. Við hjá AFJ erum sannfærð um mikilvægi menntunar, sveigjanleika vinnumarkaðarins, vaxandi vægis einyrkja á vinnumarkarði og lykilstöðu lítilla og meðalstórra fyrirtækja fyrir íslenskt efnahags- og atvinnulíf. Okkur finnst því tímabært að breikka umræðuna á vinnumarkaði og freista þess að ná samtalinu í gang í samvinnu við þá sem eru sammála okkur um að breytinga sé þörf; að tími bætta samskipta á vinnumarkaði sé runninn upp með hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi og lítil og meðalstór fyrirtæki njóti sannmælis. Nánari upplýsingar um AFJ eru á vefnum okkar www.atvinnufjelagid.is .

Verið velkomin í félagið og stofnfundinn sem verður haldinn innan skamms.


Höfundur: Helga Guðrún Jónasdóttir

Eftir Helga Guðrún 11. janúar 2025
Þegar betur er að gáð er tryggingagjaldið ekki gjald heldur vanhugsuð skattheimta sem leggst misþungt á fyrirtæki. Eðlilegri og réttlátari framkvæmd væri að reikna gjaldið af heildarveltu en ekki launaveltu. Brýnt að endurskoða framkvæmd gjaldsins að sögn formanns AFj.
11. janúar 2025
Atvinnufjelagið skorar á nýja ríkisstjórn að endurskoða framkvæmd tryggingagjalds. Skattur en ekki gjald sem leggst hlutfallslega þyngst á lítil og meðalstór fyrirtæki, eins og staðfest er í nýrri úttekt Atvinnufjelagsins.
Eftir Helga Guðrún 17. nóvember 2024
Niðurstöður nýrrar greiningar á hagrænum áhrifum tryggingagjalds, sem Atvinnufjelagið hefur látið gera, draga skýrt fram hversu misþungt þessi launaskattur leggst á fyrirtæki. Um sláandi mun er að ræða á milli atvinnugreina, sem hefur verið að aukast á undanförnum árum mannaflsfrekum atvinnugreinum óhag. Tryggingagjaldið nemur 6,35% og reiknast gjaldið af launagreiðslum fyrirtækja, en það rennur að stærstum hluta eða 75% í lífeyris- og slysatryggingar almannatryggingakerfisins. Mannaflsfrekar atvinnugreinar standa verst að vígi Eins og útreikingar Atvinnufjelagsins sýna, getur skipt verulegu máli eftir atvinnugrein hversu þungt þetta gjald leggst á fyrirtæki. Þær atvinnugreinar sem standa að jafnaði verst að vígi eiga það sameiginlegt að vera mannaflsfrekar. Oftar en ekki er um þjónustugreinar að ræða, sem hafa ekki forsendur til að draga úr mannaflsþörf með sjálfvirknivæðingu eða innleiðingu gervigreindar í verkferla. Á mannamáli þýðir þetta í reynd að ríkissjóður refsar fyrirtækjum með margt starfsfólk fyrir það eitt að vera stór vinnustaður. Í framkvæmd hefur þetta í för með sér að hlutar vinnumarkaðarins standa undir mun stærri hluta af lífeyris- og slysatryggingagreiðslum ríkisins en aðrir. Það er því að mati Atvinnufjelagsins brýnt að tryggingagjaldið verði endurskoðað með réttlátari skattframkvæmd að markmiði og lagað að jafnari og gagnsærri framkvæmd hvað einstakar atvinnugreinar snertir. Og vel að merkja, að hér sé um gjald að ræða er rangnefni. Tryggingagjaldið er ekkert annað en skattur og það ranglátur vegna þess að hann brýtur á þeirri mikilvægu meginreglu að skattheimta hafi ekki óæskilegar afleiðingar í för með sér á markaði, ekki nema um beina neyslustýringarskatta sé að ræða sem er beinlínis ætlað að stuðla að breytingum með hagrænum hvötum. Tökum frekar upp almennt launagjald Atvinnufélagið telur löngu tímabært að ríki og aðilar vinnumarkaðarins spyrji sig hvort finna megi réttlátari og gagnsærri innheimtuleið. Með hliðsjón af vægi tryggingagjaldsins fyrir tekjuöflun ríkissjóðs, en tryggingagjaldið er þriðji stærsti tekjustofn ríkisins næst á eftir tekjuskatti og virðisaukaskatti, leggur Atvinnufjelagið til að tryggingjaldi verði breytt í almennt tekjugjald. Launagjald reiknast af heildartekjum eða veltu fyrirtækja en ekki launagreiðslum og við það jafnast skattheimtan að verulegu leyti út á milli atvinnugreina. Með hliðsjón af heildarveltu fyrirtækja á síðasta ári hefði 1,52% launagjald skilað sömu tekjum til ríkissjóðs og tryggingagjaldið gerði. Nánari upplýsingar: Tryggingagjald - skattur eða gjald? (pdf) Tryggingagjald – skattur eða gjald? (pdf - einblöðungur)