Blog Layout

Aðalfundargerð 29.06.2022


Fundargerð

Aðalfundur Atvinnufélagsins
Grósku, 29. júní 2022, kl. 16:30



Sigmar Vilhjálmsson, formaður, bauð aðalfundarfólk velkomið. Því næst lagði hann til að Auður Ýr Helgadóttir tæki að sér fundarstjórn og Helga Guðrún Jónasdóttir ritun fundargerðar og var það einróma samþykkt.

Auður Ýr þakkaði viðstöddum traustið og kannaði að því búnu hvort löglega hafi verið boðað til fundarins. Svo reyndist vera og var þá gengið til venjubundinna aðalfundarstarfa skv. dagskrá.


Fyrst á dagskrá var skýrsla stjórnar og bauð fundarstjóri Sigmari Vilhjálmssyni orðið. Í yfirferð formanns yfir störf stjórnar á þessu fyrsta starfsári Atvinnufjelagsins kom m.a. fram að stjórnarmenn hafi lagst á eitt um að koma fótum undir starfsemi félagsins. Kröftunum hafi aðallega verið beint að kynningu og markaðssetningu Atvinnufjelagsins gagnvart annars vegar einyrkjum og litum og meðalstórum fyrirtækjum og hins vegar verkalýðshreyfingunni, ríkissáttasemjara, ráðherrum og öðrum hagaðilum félagsins. 

Þá greindi formaður frá því að atvinnurekendadeild Félags kvenna í atvinnulífinu (A-FKA) hafi ákveðið að ganga til liðs við Atvinnufjelagið nú í sumarbyrjun. Þetta væru góð tíðindi fyrir einyrkja, lítil og meðalstór fyrirtæki. Því betur sem gengur að byggja upp félagagrunn Atvinnufjelagsins þeim mun sterkari rödd muni þessi hingað til þögli meirihluti atvinnurekenda öðlast á vinnumarkaðnum. Helsta verkefni nýrrar stjórnar verði að halda þessu mikilvæga uppbyggingarstarfi áfram, svo færa megi starfsemi félagsin á næsta stig með starfsmannaráðningum. Að lokum vék formaður að stöðunni á vinnumarkaði, nú í aðdraganda kjarasamningagerðar í haust. Blikur séu á lofti í efnahagsmálum m.t.t. verðlagsþróunar og versnandi ytri aðstæðna. Ljóst væri því að forsenda þess að heillavænlegir kjarasamningar náist sé, að allir aðilar vinnumarkaðarins stefni að því marki og sýni með því móti ábyrgð í verki.


Er formaður hafði lokið máli sínu, þakkaði fundarstjóri honum fyrir greinargóða skýrslu og lagði að því búnu til að fyrirspurnir og umræður um skýrsluna yrðu teknar eftir kynningu á ársreikningum. Var það einróma samþykkt. Fundarstjóri gaf þá orðið Elísabetu Jónsdóttur, stjórnarkonu, sem haldið hefur utan um fjármál félagsins.


Í yfirferð Elísabetar kom m.a. fram að tekjur voru samtals um 4,4 milljónir króna og útgjöld Atvinnufjelagsins á þessu fyrsta starfsári 1,2 milljónir væru nær alfarið vegna markaðs- og kynningarkostnaðar, heimasíðu o.fl. . Þar sem félagið hefði verið stofnað seint á síðasta ári, hefði verið ákveðið að rukka aðeins hálft árgjald. Innheimtur hefðu verið góðar og ætti félagið ríflega tvær milljónir króna í sjóði. Í framtíðinni yrði árgjald innheimt í tvennu lagi um áramót og um mitt ár. 


Er Elísabet hafði lokið máli sínu opnaði fundarstjóri á fyrirspurnir og umræður um skýrslu stjórnar og ársreikning. Líflegar umræður spunnust á almennum nótum um starfsemi Atvinnufjelagsins og þá mikilvægu þýðingu sem stofnun þess hefur fyrir stöðu einyrkja, og lítilla og meðalstórra fyrirtækja á vinnumarkaði. Að umræðum loknum bar fundarstjóri svo upp skýrslu og ársreikninga, sem fundarmenn samþykktu samhljóða.

Næst á dagskrá fundarins voru lagabreytingar. Í aðalfundarboði voru tíundaðar breytingartillögur á samþykktum Atvinnufjelagsins. Fundarstjóri fór yfir helstu breytingar á samþykktum sem m.a. lúta að fyrirkomulag á innheimtu félagsgjalda, aðild félagasamtaka að Atvinnufjelaginu og fækkun stjórnarmanna úr 8 í 7 ásamt fyrirkomulagi stjórnarkjörs. Kynnti fundarstjóri þessar tillögur og bar því næst undir fundinn hvort afgreiða mætti allar tillögur í einu lagi. Var það samþykkt og voru að því búnu tillögurnar samþykktar með öllum greiddum atkvæðum. 

Næst á dagskrá var ákvörðun félagsgjalda. Kynnti fundarstjóri tillögu fráfarandi stjórnar um óbreytt félagsgjöld og var það samþykkt einróma af fundarmönnum. Félagsgjöldin á starfsárinu 2022-2023 verða því sem hér segir:


Einyrkjar kr.   35.000
2-9 stöðugildi kr.   75.000
10-19 stöðugildi kr. 125.000
20-49 stöðugildi kr. 175.000
50-99 stöðugildi kr. 250.000
100 eða fleiri kr. 350.000
Félagasamtök kr. 500.000


Verða þær innheimtar í tvennu lagi eins og áður var getið um og núna næst um þessi mánaðarmót. Næst á dagskrá var stjórnarkjör og skal skv. samþykktum formaður stjórnar kjörinn fyrst. Fyrir fundinum lá framboð Sigmars Vilhjálmssonar og lýsti fundarstjóri eftir fleiri framboðum. Aðrir gáfu ekki kost á sér. Fundarstjóri bar því fram tillögu um endurkjör Sigmars Vilhjálmssonar og var hún einróma samþykkt.


Gekk fundarstjóri þá að næsta dagskrárlið sem var kosning sex meðstjórnenda. Fyrir fundinum  lá framboð Aðalheiðar V. Jacobsen (A-FKA), Elísabetar Jónsdóttur, Gunnars Inga Arnarsonar , Helgu Guðrúnar Jónasdóttur, Ingibjargar Valdimarsdóttur (A-FKA) og Ómars Þorgils Pálmasonar. Aðalheiður og Ingibjörg koma nýjar í stjórnina en þeir sem ekki bjóða sig áfram fram og víkja því úr stjórn eru Arna Þorsteinsdóttir, Auður Ýr Helgadóttir og Þorkell Sigurlaugsson  . Fundarstjóri lýsti eftir öðrum framboðum. Aðrir gáfu ekki kost á sér. Fundarstjóri bar því fram tillögu um kjör áðurnefndra sem meðstjórnenda og var það samþykkt einróma.


Þá lágu fyrir fundinum tillaga um Örnu Þorsteinsdóttur, Jónínu Bjartmarz og Snorra Marteinssonar í varastjórn. Önnur framboð bárust ekki og var framboð þeirra einróma samþykkt.. Hvað skoðunarmann félagsins snertir var tillaga um Ómar Davíðsson einróma samþykkt, en aðrar tillögur um skoðunarmann voru ekki gerðar.


Næst á dagskrá aðalfundarins var ákvörðun um þóknun til stjórnarmanna fyrir komandi starfsár. Fráfarandi stjórn gerði tillögu um að stjórnarlaun verði ekki greidd til stjórnarmanna að þessu sinni, líkt og verið hefur hjá fráfarandi stjórn og var það einróma samþykkt.

Engin önnur mál lágu fyrir fundinum en þau, að formanni var þökkuð vaskleg framganga í fjölmiðlaviðtölum í þágu Atvinnufjelagsins.

Fleira var ekki gert og var Aðalfundi slitið kl. 17:15


/HGJ



Eftir Ingibjörg Valdimarsdottir 30 Nov, 2023
Formaður Atvinnufjelagsins mætti í viðtal í Reykjavík síðdegis til að fara yfir kjaraveturinn framundan og þær áherslur sem AFJ vill leggja inn í þær viðræður.
Eftir Ingibjörg Valdimarsdottir 20 Oct, 2023
20.okt.2023  Stjórn AFJ fundaði með Vilhjálmi Birgissyni, formanni Starfsgreinasambandsins í vikunni og ræddi við hann um áherslur félagsins þegar kemur að litlum og meðalstórum fyrirtækjum í komandi kjaraviðræðum. Rætt var um að í sameiningu þyrfti að auka kaupmátt launafólks og yrði það ekki gert án aðkomu ríkisins. Það er álit félagsins að nauðsynlegt er að kaupmáttur launa aukist án þess að hækka þurfi verð. Það er mikilvægt til að sporna við verðbólgu og ekki síður er það mikilvægt til að standa vörð um kaupgetu viðskiptavina lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Til þess að það gerist þarf aðkomu ríkisins og er stjórn AFJ með nokkrar tilllögur þess efnis sem ræddar voru á þessum fundi.
Eftir Ingibjörg Valdimarsdottir 15 Sep, 2023
Ný stjórn hittist á fyrsta fundi nýs starfsárs og byrjaði á að bjóða nýjan stjórnarmann velkominn. Félagið vill koma nokkrum málum að í komandi kjaraviðræður. Ljóst er að veturinn verður ansi harður.
Share by: