Nýr liðsfélagi í stjórn AFJ
Ný stjórn hittist á fyrsta fundi nýs starfsárs og byrjaði þar að bjóða Val Stefánsson, nýjan stjórnarmann formlega velkominn í stjórnina.
Kjaraviðræður vetrarins
Á fundinum voru ýmis mál rædd en hæst bar á málum sem félagið vill koma að inn í komandi kjaraviðræður. Ljóst er að veturinn verður ansi harður.
Rætt var að benda sérstaklega á veikindarétt starfsmanna og hvernig sá réttur liggur alfarið á atvinnurekendum. Skítur það skökku við að slíkt sé á ábyrð atvinnurekenda en ekki samfélagsins í heild, enda búum við hér á landi með samtryggingakerfi að norrænni fyrirmynd.
Hér er ekki verið að tala um að skerða rétt starfsmanna, alls ekki, heldur að færa ábyrgðina þangað sem hún á heima. Atvinnurekendur greiða 1% af launum í sjúkrasjóði lífeyrissjóða en samt sem áður liggur kostnaður vegna veikindaréttar hjá fyrirtækjum.
Veikindaréttur ætti réttilega að vera greiddur úr sameiginlegum veikindasjóði atvinnulífsins þar sem hann leggst hlutfallslega verst á lítil og meðalstór fyrirtæki sem eiga ekki að þurfa að taka mestu áhættuna á veikindum starfsmanna á hinum almenna vinnumarkaði. Benda má á útfærslur á þessu á Norðurlöndunum þá sérstaklega Svíþjóð.
Ákveðið var að fara í að fá fundi með stjórnmálamönnum, forsvarsmönnum hagsmunafélaga atvinnulífsins og stéttarfélaganna til að sjá hvort aðilar geti ekki unnið saman að sameiginlegum réttlætismálum.
Aðstoð við félagsmenn
Rætt var að fara í að skoða að semja við lögfræðistofu til að veita félagsmönnum AFJ ráðleggingar varðandi vinnurétt og önnur slík mál sem geta komið upp.
Farið var yfir þær ábendingar og hugmyndir sem hafa komið frá félagsmönnum í gegnum netfang félagsins og þær ræddar. Margar mjög góðar ábendingar og hugmyndir hafa komið á borð stjórnar sem munu nýtast vel í starfi vetrarins.
Spenna er fyrir komandi starfsári og verður settur kraftur í að koma málefnum félagsmanna á framfæri í kjaraviðræður og eins til hins opinbera.
Stjórn Atvinnufjelagsins
